
Lubbanámskeið á Blönduósi
Lubbanámskeið var haldið með góðum árangri nýlega. Námskeiðið var á vegum Lubbasmiðjunnar en hugmyndasmiðirnir á bak við Lubba eru Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir. Þær eru talmeinafræðingar með áralanga reynslu af talþjálfun barna. Þátttakendur voru sammála um að námskeiðið hefði verið einstaklega gagnlegt og fræðandi. Eyrún Ísfold kom og hélt námskeiðið í samvinnu við Farskólann og Leikskóla Húnabyggðar.
Starfsfólk leikskóla Húnabyggðar, Barnabóls á Skagaströnd og einn starfsmaður frá leikskólanum Ásgarði á Hvammstanga sóttu námskeiðið.
Lubbanámsefnið býður upp á nýstárlega framsetningu á íslensku málhljóðunum og leggur góðan grunn að lestrarnámi. Það stuðlar einnig að betri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð hjá börnum. Þátttakendur lærðu hvernig þeir gætu nýtt efnið til að styðja við málþroska barna á leikskólastigi og nota í daglegu starfi með börnum.




