
Leikskóli Húnahúnabyggðar varð til við sameiningu sveitarfélaganna Blönduóssbæjar og Húnavatnshrepps.
Við leikskólann eru tvær starfsstöðvar, Aðal starfstöð við Hólabraut 17 og Stóri Fjallabær. Starfsstöðvarnar eru báðar staðsettar eru á Blönduósi.
Á starfstöð við Hólabraut eru 4 deildir: Þúfubær, Hólabær, Fellabær og Fjallabær.
Stóri Fjallabær er staðsettur í húsnæði Húnaskóla. Á Stóra-Fjallabæ dvelja elstu nemendur leikskóla Húnabyggðar og býðst þeir nemendum sem búa í dreifbýli að koma með skólabílum.
Fyrir sameiningu sveitarfélaganna var leikskólinn Barnabær starfræktur á Blönduósi og leikskólinn Vallaból á Húnavöllum.
Leikskólinn á Blönduósi var stofnaður árið 1972. Hann hóf starfsemi sína í grunnskóla Blönduóss og var þá einungis starfandi yfir sumartímann.
Árið 1975 breyttist hann í heilsárs leikskóla og árið 1977 fluttist leikskólinn að Árbraut 35. Leikskólinn fluttist í núverandi húsnæði árið 1981.
Árið 2007, í janúar, var hafist handa við viðbyggingu sem tekin var í notkun í nóvember sama ár. Einnig var eldri bygging skólans endurnýjuð.
Leikskólinn á Húnavöllum var opnaður í ágúst árið 2008 í nýju glæsilegu húsnæði sem staðsett er á Húnavöllum við Reykjabraut.
Leikskólinn var formlega vígður í desember það sama ár og hlaut nafnið Vallaból.
Leikskóli Húnabyggðar starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 og Aðalnámskrá leikskóla frá 2011.

Gildin okkar
Virðing - Vinátta - Gleði
Virðing
- í leikskólanum leggjum við áherslu á að börn læri að bera virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki. Leitast er við að koma til móts við þarfir allra og borin er virðing fyrir margbreytileika mannlífsins og öðrum menningarheimum.
Vinátta
- í leikskólanum leggjum við áherslu á góð samskipti, samhjálp og samvinnu með því eflum við vináttutengsl.
Gleði
- Í leikskólanum leggjum við áherslu á að efla gleði í leik og námi. Okkur líður vel þegar við erum glöð og við lítum jákvæðum augum á það sem við erum að gera.
Áherslur í starfi leikskólans

Lýðræði í skólastarfi
Lýðræðislegt leikskólastarf byggist á jafnrétti, fjölbreytileika, samábyrgð, samstöðu og viðurkenningu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Þar eiga börn að finna að þau séu hluti af hópi og samfélagi þar sem réttlæti og virðing einkenna samskipti. Litið er á börn sem virka borgara og þátttakendur þar sem hver og einn fær tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á umhverfi sitt.
Í leikskóla ber að stuðla að jafnrétti og virkri þátttöku barna í samfélaginu með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Þannig öðlast þau skilning á því hvað lýðræði felur í sér, læra lýðræðisleg gildi og vinnubrögð og þróa með sér borgaravitund. Virða skal innsæi, reynslu, færni og skoðanir barna og taka mið af sjónarmiðum þeirra við skipulagningu leikskólastarfs og gefa þeim þannig tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum um verkefni og vinnubrögð (Aðalnámskrá leikskóla).
Markmið:
- að efla lýðræðislegt leikskólastarf þar sem börn finna að þau séu hluti af hópi og samfélagi þar sem réttlæti og virðing einkenna samskipti.
- að hver og einn fái tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á umhverfi sitt.
Leiðir:
- Gefa nemendum tækifæri á að taka virkan þátt í samræðum og á að hafa áhrif á leikskólastarfið
- Í hópvinnu er lögð áhersla á að nemendur hlusti hver á annan og skiptist á skoðunum
- Nemendur eiga að fá val um verkefni og vinnubrögð

Vinátta
Vinátta er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Vinátta þjálfar félagsfærni og samskipti og stuðlar að góðum skólabrag. Jafnframt byggir verkefnið á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem eru í samræmi við Barnasáttmálann, heimsmarkmiðin og aðalnámskrá.
Markmið:
- að samfélagið í leikskólanum einkennist af umburðarlyndi og virðingu
- að skapa umhverfi þar sem börn sýna hvert öðru umhyggju
- að börn læri að bregðast við neikvæðri hegðun og einelti
- að virkja einstaklinga og gefa þeim hugrekki til að grípa inn í og verja félaga sína
Leiðir:
- að vinna með kennsluefnið á öllum deildum leikskólans

Öflug málörvun
Markvisst er unnið að því að bæta orðaforða, efla málskilning barnanna og hljóðkerfisvitund.
Leiðir:
- Notast er meðal annars við kennsluefnið Lubbi finnur málbein, orð eru ævintýr, TMT og þjálfunarverkefni skólans.
Hæglæti í skólastarfi
Í hæglátu starfi gefst tækifæri til að dýpka skilning og þróa nám barna með því að dvelja með þeim – fylgjast með, hlusta og ígrunda saman í gegnum uppeldisfræðilegar skráningar. Við leggjum áherslu á að virða fjölbreytt tjáningarform barna og gefa þeim tíma og rými til að miðla hugmyndum sínum og reynslu.

Markmið:
- að taka mið af hraða, takti og áhugamálum barna
- að gefa tíma fyrir athugun, hlustun, ígrundun og skráningu
- að hvetja til rólegra daglegra venja með tíma fyrir undrun og umhyggju.
Leiðir:
- starfsfólk ígrundar og skoðar alla þætti skólastarfsins með það í huga að skapa meiri ró og flæði í daglegu starfi.
